Ég er nemandi í Listfræði við Háskóla Íslands og er að taka Tómstunda- og félagsmálafræði sem aukagrein við BA gráðuna mína. Einnig hef ég unnið hjá Reykjavíkurborg og farið með hópa af börnum og unglingum á listasöfnin í Reykjavík. Mér finnst mikilvægt að börn og unglingar kynnist listum vegna þess að það eykur þroska þeirra og skilning á menningu þeirri sem þau eru partur af. Listir eru uppeldisatriði og börn eiga rétt á að læra að njóta lista, eins og þau eiga rétt á að læra að lesa. Góður vettvangur fyrir börn og unglinga eru félagsmiðstöðvar sem kynna listir fyrir börnunum með því t.d. að fara með þau á listasöfn.
Á Kjarvalsstöðum er einhver aðstaða fyrir börn og unglinga en í Hafnarhúsi er mjög lítið um aðstöðu fyrir þau. Í Ásmundarsafni er einnig mjög lítið um aðstöðu fyrir börn og unglinga. Það sem hægt væri að gera til þess að fá börn og unglinga til þess að heimsækja söfnin meira, væri til dæmis að vera með tónlistaviðburði eða listtengda viðburð, tilvalið væri að nota Hafnarhúsið í það. Á Kjarvalstöðum væri hægt að vera með málverkasýningu sem væri bæði fyrir börn og unglinga. Í Ásmundarsafni væri hægt að hafa ratleik fyrir utan, þar sem mikið af höggmyndum Ásmundar eru utandyra. Einnig væri hægt að nota aðstöðuna inni þar sem einhverskonar hugmyndavinna færi fram. Sú hugmyndavinna myndi byggjast á að gera verk úr allskonar hlutum og síðan væri hægt að halda sýningu út frá því.
Hver skyldi stefna Reykjavíkurborgar vera í sambandi við að kynna listir og menningu fyrir börnum og unglingum?
Í stefnu listasafna Reykjavíkurborgar segir svo að safnið sé „vettvangur söfnunar, rannsókna og miðlunar á íslenskri myndlist. Safnið hefur ríkar samfélagslegar skyldur sem lúta að því að veita aðgang að sögulegum jafnt sem samtímalistaverkum með það að markmiði að auka menningarlæsi og vitund um gildi myndlistar“( Listasafn Reykjavíkur, 2017). Samkvæmt stefnu listasafns Reykjavíkur þá hefur safnið ríka samfélagslegar skyldur sem er með það að markmiði að auka menningarlæsi og vitund um gildi myndlistar. En eftir heimsóknir í safnið þá eru börn og unglingar greinilega undanskilin frá þessu markmiði. Ég myndi vilja að listasöfnin myndu breyta þessu og hafa þarfir barna og unglinga meira að leiðarljósi. Listin á að vera aðgengileg fyrir alla og vekja áhuga, og þá sérstaklega unga fólksins.
Mín hugmynd er að tengja nám tómstundafræðinga við Listfræðina þannig að Tómstundafræðin myndi bjóða upp á námskeið þar sem list væri kennd með tilliti til fræðslu barna og unglinga. Þar væri farið dýpra í listir og hvernig hægt væri að nýta þær í uppeldislegum tilgangi fyrir unglinga.
Í dag eru listasmiðjur notaðar bæði á frístundarheimilinum og í félagsmiðstöðvum. Hægt væri að tengja þær við klassíska list á söfnum og nýta það sem söfnin hafa upp á að bjóða. Gott væri að frístundaleiðbeinandinn væri þá með þekkingu á listum til að geta nýtt sér þetta.
Listin skiptir máli og alltaf er hægt að gera betur þegar kemur að menningarlæsi og gildi listarinnar. Sérstaklega þegar börn og unglingar eiga í hlut því að þetta er vegarnesti fyrir lífstíð sem þau munu búa að um aldur og ævi.
Listin fyrir lífið.
—
Anna María Ingibergsdóttir
Heimild
Listasafn Reykjavíkur. (2017). Um safnið . Sótt af http://listasafnreykjavikur.is/um-safnid